Um Brassbandið
Vorið 2013 varð Skólahljómsveit Grafarvogs 20 ára. Af því tilefni var ákveðið að safna saman eldri félögum sveitarinnar til að dusta rykið af hljóðfærunum og reyna að mynda spilhæfa hljómsveit. Þrátt fyrir óæfðar varir tókst ætlunarverkið og tók hópurinn þátt í afmælishátíð Skólahljómsveitar Grafarvogs og stóð sig vel.
Eftir afmælistónleikana héldu æfingar áfram án þess að framtíðin lægi fyrir. En mikið var rætt og á endanum var ákveðið að gera þetta formlega og stofna lúðrasveit. Því var haldinn stofnfundur 28. apríl 2013 og Brassband Reykjavíkur varð til.
Frá upphafi hefur markmiðið verið að starfrækja lúðrasveit með aðeins öðruvísi fyrirkomulagi en tíðkast hefur á Íslandi. Hljómsveitin er brass band. Það form rekur uppruna sinn til Bretlands þar sem verkamönnum var safnað saman í lúðrasveit til að halda að þeir stunduðu eitthvað uppbyggilegra en að eyða frítímanum á börum. Brassbönd eru eingöngu skipuð málmblásurum. Ástæðan fyrir því er að þau hljóðfæri eru ódýrari og endingarbetri en flest önnur. Að hafa sveitina eingöngu skipaða málmblásurum gefur aðra möguleika og öðruvísi hljóm en Íslendingar eiga að venjast.
Bandið hefur komið fram við ýmis tilefni og haldið fjölda tónleika bæði eitt og með öðrum. Færeyjar og England hafa verið heimsótt, sem var alveg gríðarlega skemmtilegt.
Haustið 2015 varð Brassband Reykjavíkur meðlimur í Sambandi Íslenskra Lúðrasveita.
Brassband Reykjavíkur æfir á fimmtudagskvöldum, í Húsaskóla í Grafarvogi.